Fréttir

Akurskóli fagnar Grænfána á Narfakotseylu

   2.2.2012
 

Akurskóli hefur verið ,,Skóli á grænni grein“ síðan haustið 2009 og fékk í dag alþjóðlega viðurkenningu og flaggar nú Grænfána í fyrsta sinn. Viðurkenningin er veitt fyrir góða frammistöðu í menntun til sjálfbærrar þróunar og fyrir að leggja sitt af mörkum til þess að efla og bæta umhverfismál innan skólans og í nærsamfélaginu. Það var fulltrúi Landverndar, Gerður Magnúsdóttir, sem afhenti nemendum og starfmönnum Akurskóla Grænfánann í morgun niður í Narfakotsseylu.

Við athöfnina sungu nemendur Þorraþræl og lagið sem unga kynslóðin söng í áramótaskaupi sjónvarpsins 2011. Heitt kakó og kleinur voru í boði fyrir alla. Grænfáninn var síðan dreginn að húni við Akurskóla. Frá upphafi skólahalds í Akurskóla hefur stefnan verið tekin á umhverfisvænan skóla. Hugmyndir frá nemendum og starfsmönnum hafa verið margar og verkefnin ótal mörg. Við athöfnina rakti fulltrúi Grænfánateymisins, Aðalheiður Hanna Björnsdóttir kennari, í stuttu máli þá vinnu sem nemendur og starfsmenn hafa lagt af mörkum síðastliðin tvö ár í þágu umhverfisverndar. Má þar nefna endurnýtingu og endurvinnslu pappírs, moltugerð, kartöflurækt, flokkun úrgangs, hóflega notkun vatns og rafmagns og auk þess hafa verið notuð margnota drykkjar- og mataráhöld í Akurskóla frá stofnun skólans. Í þessu felst að vekja athygli á náttúru- og umhverfisvernd. Aðalheiður sagði jafnframt að ferðalagið héldi áfram og að öll ætluðum við okkur að vinna hörðum höndum að því að viðhalda og bæta umhverfi okkar og vinnubrögð.


 

 

Tögg

Vista sem PDF