Fréttir

Grænfáninn Landvernd    15.2.2012
Grænfáninn Landvernd

Almanak SORPU skipar fastan sess í útgáfustarfsemi fyrirtækisins. Almanakið hefur komið út frá árinu 2002 og hefur verið unnið í samstarfi við ýmsa aðila undanfarin 10 ár. Fyrir almanaksárið 2012 leitaði SORPA samstarfs við Landvernd um gerð almanaksins. Fjöldi leik og grunnskóla á grænni grein á samlagssvæði SORPU tóku þátt í samkeppninni. Öllum þeim sem sendu inn verk eru færðar góðar þakkir um leið og við vonum að almanakið komi ykkur að góðum notum.

Almanakið prýða nú 15 verk leik- og grunnskólanemenda. Í almanakinu er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um starfsemi SORPU sem og flokkun úrgangs og endurnýtingu. Við viljum nota tækifærið og benda ykkur á að allir helstu dagar sem eignaðir eru umhverfinu, s.s. Alþjóðadagur vatnsins eða Alþjóðadagur lífbreytileika, eru merktir inn á almanakið.

Almanakinu er dreift í 10.000 eintökum, á starfsstöðvum SORPU og í alla leik- og grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þínum skóla ætti því að berast nokkur eintök af almanakinu þar sem það er í dreifingu þessa dagana í gegnum skólaskrifstofur sveitarfélaganna.

Þau tvö verk, annað frá leikskóla og hitt frá grunnskóla, sem að mati dómnefndar reyndust hlutskörpust voru:

Umhverfið mitt, sem prýðir júlímánuð, unnið af nemendum á tveimur elstu deildunum Leikskólans Fálkaborgar (nú önnur tveggja starfsstöðva Leikskólans Borgar) og Tískufatnaðurunnið af nemendum í 7. bekk Álftanesskóla. Það verk er að finna á forsíðu og baksíðu almanaksins.

Dómnefndina skipuðu tveir fulltrúar úr stjórn Landverndar og frá SORPU. Í rökstuðningi þeirra fyrir valinu kemur eftirfarandi fram:

„Í Umhverfinu mínu sameinast annars vegar nýting á „sorpi“ - efni sem er hent en er vel nýtanleg auðlind í raun og veru. Nemendur sjá efni í nýju ljósi þegar þeir skapa úr því og skoða um leið umhverfi sitt, sig sjálf og leikskólann. Það er einmitt í þessu umhverfi sem sorpið endar og mengar ef við endurvinnum það ekki og drögum úr því.“

Dómnefndin segir ennfremur í mati sínu á verkinu Tískufatnaður:

„Nemendurnir hafa sýnt ótrúlega humyndauðgi í útfærslum sínum á fatnaði. Það var merkilegt að sjá allan efniviðinn, sem við lítum venjulega á sem úrgang, lifna í höndunum á þeim og verða að áþreifanlegum verðmætum þegar stelpurnar svo klæddust fötunum.“

Vinningshafarnir í Leikskólanum Borg og Álftanesskóla fá skoðunarferð í Gufunes og Álfsnes að launum ásamt greinargóðri kynningu á starfsemi SORPU.

Við hjá Landvernd erum þakklát öllum þeim sem tóku þátt í samkeppninni sem og samstarfsaðilinum okkar hjá SORPU. Nemendum Skóla á grænni grein er klárlega treystandi til þess að vísa okkur veginn inn í framtíðina hvað sorpmál snertir. Það er því ánægjulegt að hafa getað gefið þeim tækifæri á að sýna afrakstur sinnar góðu vinnu í almanaki SORPU fyrir árið 2012.

Tögg

Vista sem PDF