Fréttir

Grænfáninn afhentur Síðuskóla í fjórða sinn

   25.4.2012

 

Í dag, miðvikudaginn 25. apríl, fékk Síðuskóli Grænfánann afhentan við hátíðlega athöfn í íþróttasal skólans. Þetta var í fjórða sinn sem skólinn fékk fánann afhentan og í upphafi skóladags var íslenski fáninn dreginn að húni í tilefni dagsins. 

Á hátíðinni í íþróttasalnum var dagskráin að mestu leyti í höndum nemenda skólans. Skólastjóri flutti ávarp í upphafi en síðan sáu Hulda Margrét Sveinsdóttir og Sævar Þór Fylkisson nemendur í 6. bekk um kynninguna. Nemendur í 5. bekk voru með söngatirði og Ásdís Guðmundsdóttir, nemandi í 8. bekk, flutti Umhverfisávarp.

Leikatriði eldri nemenda og upplestur hjá nemendum úr 3. bekk var einnig á dagskrá og að lokum sungu allir skólasönginn saman.

Nemandi í 3. bekk, Sóley Gunnarsdóttir, las frumsamið ljóð sem hún kallar

FÓLKSBÍLL.

Fólksbíllinn, hann keyrir um
Ótrúlega hratt.
Léttur og lítill er og líka
Klár þótt hann sé smár.
Skrýtið er að bíll sé klár.
Bíllinn er með
Ísvél hér
Lítil vél og mengar ekki. Það
Líkar mér.

Fulltrúi frá Landvernd Guðmundur Sigvaldason afhenti Umhverfisnefnd skólans fánann og fóru nemendur saman í skrúðgöngu út að fánastöng með hann. Þar tók Gunnar Þór húsvörður við honum og dró hann að húni með aðstoð Klöru Fannar Arnedóttur og Baldurs Freys Jóhannssonar. Að lokinni athöfninni úti var öllum boðið að þiggja léttar veitingar.

 

Tögg

Vista sem PDF