Fréttir

Grænfáninn blaktir á Seltjarnarnesi

Grænfáninn Landvernd    1.12.2004
Grænfáninn Landvernd

Undafarin átta ár hafa nemendur, kennarar og foreldrar leikskólans Mánabrekku á Seltjarnarnesi staðið að öflugu starfi á sviði umhverfismála. Úttekt leiddi í ljós að leikskólinn uppfyllir nú öll skilyrði til að fá heimild til að flagga hinum eftirsótta Grænfána.


Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra færði börnunum Grænfánann. dag, miðvikudag 1. desember 2004, mættu þær Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, og Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, formaður Landverndar, í leikskólann og afhentu fánann við hátíðlega athöfn með söng og ræðum. Bæjarstjórinn Jónmundur Guðmarsson var mættur og fagnaði þessum tímamótum ásamt skólastjóra Mánabrekku Dagrúnu Ársælsdóttur og fjölmörgum gestum. Fáninn mun blakta við skólann a.m.k. næstu tvö árin til marks um það hve gott starf þar fer fram á sviði umhverfismála og umhverfismenntar.

Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um góða fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Fánann fá skólar í kjölfar þess að hafa leyst fjölþætt verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau efla þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri. Fáninn er veittur til tveggja ára í senn.


Ólöf Guðný Valdimarsdóttir afhendir skólastjóranum Dagrúnu Ársælsdóttur alþjóðlegt skírteini sem staðfestir árangur Mánabrekku.

Núna eru 23 grunnskólar skráðir í verkefni Landverndar ,,Skólar á grænni grein” og af þeim hafa 10 þegar fengið fána. Skráðir leikskólar eru 10 og af þeim hafa fjórir fengið fána. Á heimsvísu taka um 10.000 skólar þátt í þessu verkefni.

Að baki Grænfánanum stendur Sjálfseignarstofnun sem heitir Foundation for Environmental Education (FEE). Landvernd á aðild að FEE og hefur umsjón með Grænfánanum á Íslandi. Verkefnið nýtur stuðnings bæði menntamálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis.


Vista sem PDF