Fréttir

Verkefnasamkeppnin Varðliðar umhverfisins

Katrín Magnúsdóttir    3.2.2016
Katrín Magnúsdóttir

Varðliðar umhverfisins er yfirskrift verkefnasamkeppni grunnskólanemenda í 5. til 10. bekk. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur standa að keppninni. 

Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði. Verkefnin mega vera af fjölbreyttum toga, t.d. ritgerðir, ljósmyndir, ljóð, veggspjöld, bæklingar, myndbönd og hljóðverk og geta verið á hvaða formi sem er. Lögð er áhersla á að frumkvæði nemenda sé sýnilegt bæði við undirbúning og úrvinnslu verkefnanna og mikilvægt er að gögn séu unnin af nemendum sjálfum. Óskað er eftir verkefnum sem fjalla um umhverfismál í víðum skilningi og hafa jákvæð áhrif á hegðun og viðhorf til umhverfisins, innan skólans og utan. Einnig styrkir verkefnin að þau feli í sér nýja sýn á umhverfismál og hafi sem besta tengingu við nám nemenda og þverfaglegt skólastarf. 

Skilafrestur verkefna er til 1. apríl 2016 og þau skal senda umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, merkt ,,Varðliðar umhverfisins”. Dómnefnd skipuð fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Landverndar og Náttúruskóla Reykjavíkur velur úr innsendum verkefnum og útnefnir Varðliða umhverfisins. Allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal og valin verkefni verða verðlaunuð af umhverfis- og auðlindaráðherra á Degi umhverfisins 25. apríl 2016.

Tögg

Vista sem PDF