Þemu Skóla á grænni grein

           

             Til þess að Landvernd megi veita grænfána í fyrsta skipti þarf skólinn að hafa stigið skrefin sjö að Grænfána og unnið markvisst með a.m.k. eitt þema.

             Skólinn setur sér markmið sem tengjast þemanu með einhverjum hætti og vinnur verkefni í tengslum við þemað.

             Hægt er að finna verkefni sem tengjast þemunum  á verkefnakistu Skóla á grænni grein. 

             Hægt er að smella á hvert þema til að fá nánari upplýsingar, en ítarlegar upplýsingar um þau þemu sem í boði eru má finna í handbókinni Á grænni grein

             Þemun sem í boði eru, eru eftirfarandi: 

Vatn: Hvaðan kemur vatnið? Eigum við nóg af vatni í heiminum? En á Íslandi? Hvernig nýtum við vatnið? Hvernig spörum við vatnið? Þurfum við að spara vatnið á Íslandi?

Orka: Hvaðan kemur orkan? Hvernig orku notum við á Íslandi? Hver eru umhverfisáhrif mismunandi orkugjafa? Hver eru umhverfisáhrif þeirra orkugjafa sem við notum hér á landi? Eigum við nóg af orku í heiminum? En á Íslandi? Hvernig er orkan nýtt? Hvernig getum við sparað orku?

Neysla og úrgangur: Hverjar eru raunverulegar þarfir okkar? Þurfum við allan þennan mat, föt, hluti? Hvaðan kemur þetta allt? Er þetta framleitt á Íslandi eða annars staðar? Hvað verður um það sem við erum hætt að nota? Getum við minnkað neyslu okkar? Hvað felur það í sér? Minnka lífsgæðin um leið og við minnkum neysluna? Hvaða hlutir skipta okkur raunverulegu máli í lífinu? Hvað er úrgangur? Hvaðan kemur hann? Getum við takmarkað úrganginn sem fer frá okkur? Hvernig getum við gert það? Hvernig getum við endurnýtt og endurunnið? Af hverju er mikilvægt að takmarka það rusl sem fer frá okkur? Hvaða áhrif hefur það ef við gerum það ekki? 

Átthagar og landslag: Hvað er að finna í nærumhverfi skólans? Hvaða stofnanir og fyrirtæki er að finna í nágrenninu? Hvar búum við og hvernig komumst við í skólann? Getum við haft samband við fólkið í sem býr og starfar í kringum skólann? Getum við kennt þeim eitthvað eða lært eitthvað af þeim? Getum við haft áhrif á nærumhverfi okkar með einhverjum hætti, t.d. sett okkur í samband við sveitarstjórn ef það er eitthvað sem við viljum koma á framfæri? Hvernig lítur nærumhverfi skólans út? Eru hólar eða hæðir? Fjöll og dalir? Getið þið farið í ferð út fyrir skólann þar sem þið upplifið breytt landslag? Hvernig hefur landslagið myndast? Hvernig tengist landslagið sögunni? Hvaða örnefni í nærumhverfinu?

Lýðheilsa: Hvernig er heilsa okkar í skólanum? Hreyfum við okkur nóg? Hvað getum við gert til að hreyfa okkur meira í daglegu lífi? Borðum við hollan mat? Líður okkur vel í skólanum og daglega lífinu? Erum við góð hvert við annað? Erum við dugleg að vera úti í náttúrunni? Hvaða áhrif hefur lífstíll okkar á umhverfið?

Loftslagsbreytingar og samgöngur: Hvað eru loftslagsbreytingar? Hvaða áhrif hafa loftslagsbreytingar? Af hverju stafa þær? Hvað getum við gert til að sporna við þeim?Hvernig komum við í skólann? Komum við gangandi, hjólandi, á bíl eða með strætó? Hvaða áhrif hafa mismunandi samgöngutæki á umhverfið? En heilsuna?

Lífbreytileiki: Einnig kallað líffræðileg fjölbreytni. Hvaða lífverur er að finna í nærumhverfi skólans? En á Íslandi? Í hvernig vistkerfi lifa lífverurnar? Vitum við eitthvað um lífverur og vistkerfi annars staðar í heiminum? Líður lífverunum vel? Hvað þurfa lífverurnar til að líða vel? Er rétt að koma með nýjar tegundir (t.d. kanínur) út í villta náttúru Íslands? Hvaða áhrif getur það haft? Getum við gert eitthvað til að auka lífbreytileikann í kringum okkur? En annars staðar í heiminum?

Hnattrænt jafnrétti: Hvernig tengjumst við öðrum heimshlutum? Hvernig hafa nemendur það annars staðar? Búa allir við í heiminum við félagslegt réttlæti? Hefur lífstíll okkar einhver áhrif á líf fólks annars staðar í heiminum? Getum við sett okkur í samband við nemendur annars staðar í heiminum?

Náttúruvernd: Af hverju er mikilvægt að vernda náttúruna? Hvernig gerum við það? Eru allir sammála um hvernig best er að standa að verndun náttúrunnar? Getum við gert eitthvað til að vernda náttúruna í kringum okkur?

Vistheimt: Einnig kallað endurheimt vistkerfa. Getum við gert eitthvað til að endurheimta það vistkerfi sem áður var á landssvæði sem hefur raskast? Getum við endurheimt vistkerfi á svæðum þar sem nú er auðn? Landvernd stendur fyrir verkefni sem snýr að því að aðstoða nemendur við visheimt á örfoka landi í grennd við skólann. Áhugasamir skólar leiti til Landverndar.